FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 day ago
Á hverju ári koma fjölmargir gripir í ljós í þeim fornleifarannsóknum sem Fornleifastofnun Íslands stundar. Fyrstu gripir sumarsins eru þegar teknir að tínast í hús, en á síðasta ári fundust um 5000 gripir á 15 rannsóknarstöðum og er þá ótalinn mikill fjöldi dýrabeina sem einnig fundust við uppgreftina. Töluverður munur er á fjölda funda gripa milli staða, í sumum rannsóknum finnast engir gripir en við aðrar koma þeir upp úr jörðu í þúsundatali; sem dæmi má nefna að um 4000 af gripum ársins 2023 komu úr einni rannsókn, á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka. Að vettvangsvinnu sumarsins lokinni tekur við úrvinnsla að hausti en alla gripina og beinin þarf að hreinsa, skrá og pakka í viðeigandi umbúðir eftir því úr hvaða efni þeir eru svo að þeir varðveitist sem best. Til að mynda eru málmgripir settir í loftþéttar umbúðir með silikageli til að halda rakastigi sem lægstu meðan lífrænir gripir, s.s. viður og bein, eru hafðir í götuðum fundapokum í pappakössum til að halda góðu loftflæði um gripina. Sérfræðingar sjá um að greina gripina en sumir þeirra eru of illa farnir eftir langa veru í jörðu til að greina megi nokkuð annað en efni þeirra. Í öðrum tilvikum má úrskurða um nákvæman upprunastað eða framleiðsluár. Samanlagt veita gripir sem finnast við fornleifauppgröft mikilvæga innsýn í þær minjar sem grafnar eru, t.d. um aldur mannvirstarlagsins sem þeir fundust í en gripirnir geta líka gefið vísbendingar um daglegt líf, viðskiptasambönd við umheimin og handverkshefðir. Að rannsóknum loknum verða allir fundirnir afhentir Þjóðminjasafni Íslands til langtímavarðveislu.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands5 days ago
Rannsókn á áhrifum skógræktar á minjar og menningarlandslag heldur áfram nú í ár en verkefnið er styrkt af Fornminjasjóði. Fram að þessu hefur verið lögð mest áhersla á að safna gögnum af ýmsu tagi, bæði sögulegum gögnum um skógrækt og skipulagsmál og landfræðilegum gögnum sem varða bæði skógrækt og minjar. Í ár er áætlað að gera vettvangsrannsóknir á völdum svæðum til að reyna að varpa ljósi bæði á afdrif einstakra minjastaða og langtímaáhrif skógræktar á heildir og menningarlandslag. Strax á fyrsta ári verkefnisins var ráðist í að þróa hliðarverkefni sem hlaut í upphafi árs styrk frá Norrænum vinnuhópi um líffræðilega fjölbreytni (NBM), en þar er einnig lögð áhersla á landslag og menningarumhverfi. Samstarfsaðilar okkar í verkefninu, sem er til þriggja ára, eru Tjóðsavnið í Færeyjum og Norski vísinda- og tækniháskólinn í Þrándheimi (NTNU). Markmiðið með þessu verkefni er að efla samstarf milli landanna og bera saman ýmsa þætti sem varða bæði landslag, menningarminjar og skipulag skógræktar.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands6 days ago
Það er mikill spenningur á meðal starfsmanna Fornleifastofnunar fyrir sumarvertíðinni framundan. Við höfum þegar tekið forskot á sæluna og með þessari mynd sem var tekin í fornleifaskráningu í Suðursveit á dögunum óskar Fornleifastofnun fylgjendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars og þakkar fyrir samfylgdina í vetur.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)